Breytt fyrirkomulag innlausnar á greiðslumarki sauðfjár
Ráðherra hefur gefið út breytingarreglugerð um innlausn á greiðslumarki í sauðfé. Þar kemur fram að handhafi greiðslumarks geti óskað eftir innlausn á greiðslumarki. Matvælastofnun skal bjóða til sölu það greiðslumark sem er innleyst á árinu 2019 á núvirtu andvirði beingreiðslna næstu þriggja almanaksára. Miðað er við stýrivexti Seðlabanka Íslands 1. janúar ár hvert og greiðslur frá þeim tíma. Framleiðendur sem eiga 100 kindur eða fleiri og eru með ásetningshlutfallið 1,0 eða hærra skulu hafa forgang að 60% þess greiðslumarks sem er í boði á markaði árið 2019. Það skiptist hlutfallslega milli aðila sem hljóta forgang í samræmi við það magn sem þeir óskuðu eftir að kaupa. Það greiðslumark sem þá er eftir skal boðið öðrum kaupendum sem og þeim aðilum er nutu forgangs, hlutfallslega í samræmi við það magn sem þeir óskuðu eftir að kaupa.
Framleiðendur sem hyggjast kaupa greiðslumark fylla út rafrænt eyðublað, sem Matvælastofnun mun birta á vefnum á næstu dögum. Þeir sem hyggjast selja greiðslumark sitt fylla út eyðublað sem finna má á þjónustugátt MAST. Nánar verður sagt frá fyrirkomulaginu í næstu viku.