Fara í efni

Listería í reyktum laxi og bleikjuafurðum

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Matvælastofnun varar við neyslu á tilteknum lotum af reyktum laxi og fjallableikju frá Ópal Sjávarfangi. Fyrirtækið hefur innkallað vörurnar af markaði vegna listeríu (Listeria monocytogenes) sem greinst hefur í þeim, í samráði við Matvælastofnun. 

Stofnunin ítrekar einnig fyrri viðvörun um allan graflax frá Ópal Sjávarfangi með síðasta notkunardegi í janúar, febrúar og mars.

Matvælastofnun stöðvaði dreifingu til bráðabirgða á umræddum vörum og graflaxi frá Ópal 5. febrúar s.l. á meðan á rannsókn stendur. Dreifing og markaðssetning verður ekki heimil fyrr en stofnunin hefur fengið staðfest að listería greinist ekki í framleiðsluferlinu.

Innköllunin á við eftirfarandi framleiðslulotur:

  • Vöruheiti: Ópal birkireyktur laxabiti og laxaflöt, Ópal reyktar laxasneiðar (100 gr og 300 gr), Ópal reyktur laxaafskurður, 400 gr. Ópal reykt fjallableikja í sneiðum, 100 gr og fjallableikja í bitum
  • Framleiðandi: Ópal Sjávarfang ehf., Grandatröð 4, 220 Hafnarfjörður
  • Síðasti notkunardagur: Allar dagsetningar í janúar og febrúar
  • Lotunúmer: Reyktur lax 01.30.03 og 01.30.05. Fjallableikja 03.10.03
  • Strikamerki: Sjá einnig mynd að neðan. 23 273 21 00000 V, 23 273 22 00000 V, 5 69423010104, 5 694230 101177, 569423010133, 5 694230 101368, 23 273 66 00000 V
  • Framleiðsluland: Ísland
  • Dreifing: Verslanir 10-11, verslanir Hagkaupa, verslanir Nettó, verslanir Kjörbúðarinnar, verslanir Krambúðarinnar, Melabúðin og verslanir Iceland

Neytendum sem keypt hafa vöruna er bent á að neyta hennar ekki og hafa samband við fyrirtækið um endurgreiðslu í síma 517 66 30 eða á netfanginu opal@opal.is.

Listeria monocytogenes getur orsakað sjúkdóm bæði hjá mönnum og dýrum og kallast þessi sjúkdómur listeriosis. Einkenni sjúkdómsins eru mild flensueinkenni, vöðvaverkir, hiti og stundum ógleði og niðurgangur. Alvarlegri einkenni eru heilahimnubólga í ungbörnum, blóðeitrun og getur sjúkdómurinn einnig valdið fósturláti. Í einstaka tilfellum getur bakterían valdið dauða, þá er yfirleitt um að ræða einstaklinga sem eru með skert ónæmiskerfi.

Í flestum heilbrigðum einstaklingum veldur neysla á listeríumenguðum matvælum ekki sjúkdómi. Áhættuhópar eru barnshafandi konur, ófædd og nýfædd börn og einstaklingar með skert ónæmiskerfi. Hópsýkingar af völdum listeríu eru mjög sjaldgæfar, oftast er um að ræða einstaklingssýkingar.

 

Ítarefni

Uppfært 13.02.19 kl. 9:45


Getum við bætt efni síðunnar?