Fara í efni

Trippin tvö komin til byggða

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.
Trippin tvö sem hafa verið innikróuð nyrst í Gæsadal eru komin til byggða. Gerður var út leiðangur björgunarsveitarmanna frá björgunarsveitinni Ægi á Grenivík í gær undir forustu Þórarins Péturssonar bónda á Grýtubakka í fylgd héraðsdýralæknis til að sækja trippin tvö á snjótroðara Kaldbaksferða. Björgunarsveitarmenn á þremur sérútbúnum vélsleðum aðstoðuð bílstjóra snjótroðarans við að finna hentuga leið, en hvítt var yfir öllu og mjög blindað.

Gæsadalur er í fjöllunum við utanverðan Eyjafjörð að austanverðu og  gengur til norðurs frá Vikurskarði að Dalsmynni. Snarbratt er fram úr dalnum niður í Dalsmynni og því var eina leiðin að fara af Vikurskarði. Um tvo tíma tók að komast til trippanna og  um þrjá tíma til baka. Aðstæður voru mjög erfiðar, víða laus snjór og brattlent. Ógerningur var að reyna að reka trippin til byggða sökum fannfergis, auk þess sem þau voru orðin veikburða. Björgunarsveitarmennirnir, sem voru sex talsins, sýndu mikinn dugnað og útsjónarsemi við erfiðar aðstæður, en auk þess veittu þrír bændur úr Fnjóskadal sem þarna voru á ferð á vélsleðum aðstoð á erfiðasta hluta leiðarinnar. Auk héraðsdýralæknis voru með í för dýralæknir og aðstoðarmaður á vegum eiganda tripanna.

Trippin sem eru hryssur, önnur veturgömul og hin tveggja vetra, voru mjög þreyttar eftir ferðalagið og var þeim gefin næring í æð á leiðinni.

Þau hafa verið innikróuð þarna í fjöllunum líklegast vikum saman en þeir bræður frá Ártúni í Höfðahverfi,  Sveinn og Sveinbjörn Benediktssynir fundu þau fyrir tilviljun 28. desember s.l. þar sem þeir voru á ferð um dalinn á vélsleðum. Síðan hefur þeim verið fært hey samkvæmt fyrirskipun búfjáreftirlitsins, sem hafði gefið eigandanum frest til vikuloka að koma trippunum til byggða. Þegar Ólafur Jónsson, héraðsdýralæknir Norðausturumdæmis fékk vitneskju um málið  greip hann þar inní og fyrirskipaði að þau skyldu sótt strax.

Allt gekk þetta að óskum og er útlit fyrir að hrossin nái sér að fullu. Héraðsdýralæknir mun óska eftir því að lögregla skoði þátt eiganda trippanna í þessu máli, en hann hafði saknað hrossanna frá mánaðamótum október og nóvember.


Frá vinstri: Jón Ásgeir Pétursson snjótroðarastjóri, Elvar Rafnsson, Ólafur Jónsson héraðsd., Sveinn og Sveinbjörn Benediktssynir (sem fundu trippin), Gestur Júlíusson dýralæknir, Guðni Rúnar Tómasson, Gunnþór Ingimar Svavarsson, Þorsteinn Friðriksson, Þórarinn Pétursson og Sævar Pálsson fulltrúi eiganda.

Getum við bætt efni síðunnar?