Fara í efni

Synjun Matvælastofnunar felld úr gildi

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Nýlega féll dómur í Hæstarétti sem felldi úr gildi synjun Matvælastofnunar á að heimila innflutning á fæðubótarefni sem inniheldur mikið koffín.

Matvælafyrirtæki óskaði eftir að fá að flytja umrætt efni inn. Í umsókninni kom fram að um sé að ræða fæðubótarefni sem selt sé í sölueiningum sem innihalda 100 hylki af efninu og að ráðlagður daglegur neysluskammtur sé eitt hylki fyrsta daginn, tvö hylki á öðrum og þriðja degi en tvö hylki tvisvar á dag á fjórða degi og þar á eftir. Samkvæmt þessu sé heildarmagn koffíns í vörunni 270 mg tvisvar á dag eða samtals 540 mg.

Matvælastofnun synjaði umsókninni og vísaði til álita rannsóknarstofu Háskóla Íslands í næringarfræðum og rannsóknarstofu sama skóla í eiturefnafræðum þar sem báðir aðilar mæltu gegn því að leyfi yrði veitt fyrir markaðssetningu vörunnar. Bæði álitin byggðu á drögum að skýrslu Matvælaöryggisstofnunar Evrópu (EFSA) þar sem fram kom að neysla koffíns allt að 400 mg á dag væri til lengri tíma líklega hættulaus en ef farið væri yfir þessi mörk væri ekki hægt að fullyrða að neysla koffíns væri skaðlaus til lengri tíma.

Umsækjandinn mótmælti þessu og kvaðst telja synjunina meðal annars fela í sér brot á jafnræðis- og meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar og benti á að unnt væri að ná hinu lögmæta markmiði ákvörðunarinnar með öðru og vægara móti; til að mynda með því að veita leyfið gegn skilyrðum um að breytt yrði merkingum vörunnar um ráðlagðan daglegan neysluskammt.

Líkt og undirréttur féllst Hæstiréttur á rök umsækjandans og sagði að Matvælastofnun væri heimilt að setja skilyrði fyrir markaðssetningu og innflutningi vöru ef stofnunin telur hana heilsuspillandi fyrir neytendur eða tiltekinn hóp þeirra. Matvælastofnun stóðu með öðrum orðum til boða vægari úrræði en að hafna með öllu umsókninni, þ.e. með því að gera kröfu um nýjar merkingar. Það væri því ljóst að stofnunin hefði farið strangar í sakirnar en nauðsyn bar til og brotið þar með meðalhófsreglu stjórnsýslulaga.

Ákvörðun Matvælastofnunar var felld úr gildi.


Getum við bætt efni síðunnar?