Fara í efni

Hlutverk og verkefni

Við stöndum vörð um heilsu manna, dýra og plantna og aukum þannig velferð og verðmætasköpun í þágu þjóðarinnar.

Verkefni

MAST vinnur að matvælalöggjöf í samvinnu við ráðuneytið og á þetta við um löggjöf í allri fæðukeðjunni, þ.e. frá heilbrigði og velferð dýra, þ.m.t. sjávarafurða, plöntuheilbrigði, fóðri, vinnslu og dreifingu og þar til matur er borinn á borð neytenda. Stofnunin fer með eftirlit með frumframleiðslu búfjárafurða, sláturhúsum, kjötvinnslum, mjólkurbúum og eggjaframleiðslu, eftirlit með sjávarafurðum og allt inn- og útflutningseftirlit með matvælum. MAST fer einnig með yfirumsjón með matvælaeftirliti á vegum heilbrigðiseftirlits sveitarfélaga og eftirlit með störfum dýralækna sem veita almenna dýralæknaþjónustu og öðrum sem sinna heilbrigðisþjónustu við dýr. Einnig fer stofnunin með fóðureftirlit og önnur verkefni eins og sjá má á eftirfarandi lista yfir helstu verkefni MAST:

  • Matvælalöggjöf og matvælaeftirlit
  • Neytendavernd og fræðslumál
  • Heilbrigði og velferð dýra
  • Plöntuheilbrigði og sáðvara
  • Fóður og áburður
  • Sóttvarnir og viðbragðsáætlanir
  • Kjötmat og fiskeldi
  • Inn- og útflutningseftirlit, rekstur landamærastöðva
  • Yfirumsjón og eftirlit: Heilbrigðiseftirlit sveitarfélaga, heilbrigðisþjónusta við dýr
  • Stjórnsýsluverkefni: Lögfræði, alþjóðamál, samræming og úttektir

Frá heilbrigði til hollustu

Vígorð Matvælastofnunar er “Frá heilbrigði til hollustu”. Vísar það til þess að stofnunin fer með löggjöf og eftirlit sem varðar heilbrigði plantna, heilbrigði og velferð dýra og síðan matvælaöryggi, ýmist með eigin starfsemi eða með eftirliti með heilbrigðisþjónustu við dýr eða samstarfi og samvinnu við heilbrigðiseftirlit sveitarfélaga. Heilbrigðiseftirlitið fer með víðtækt eftirlit með framleiðslu og dreifingu matvæla undir yfirumsjón MAST. Heilbrigðiseftirlitssvæðin eru tíu og um allt land.

Uppfært 08.02.2023
Getum við bætt efni síðunnar?