Fara í efni

Niðurstöður eftirlits með neysluvatni árin 2020, 2021 og 2022

Heilbrigðiseftirlit sveitafélaga fer með opinbert eftirlit með neysluvatni. Reglubundið eftirlit er haft með vatnsveitum sem þjóna matvælafyrirtækjum og þeim sem þjóna 50 manns eða fleiri eða a.m.k. 20 heimilum eða sumarhúsum. Rúmlega 50 veitur þjóna fleirum en 500 manns en þær sem þjóna færri en 50 manns og/eða matvælafyrirtæki skipta hundruðum og flestar þeirra eru einkaveitur sem þjóna kúabúum eða ferðaþjónustu.

Á hverju ári eru tekin um 1000 sýni af neysluvatni og þar af er um helmingur tekinn hjá veitum sem þjóna yfir 500 manns. Þá er tekin svokölluð heildarúttekt a.m.k. einu sinni á ári hjá stærri veitum, þar sem skimað er fyrir hinum ýmsu efnum sem óæskilegt er að leynist í vatninu. Þau sýni voru tæplega 70 á ári, þessi þrjú ár.

Helstu niðurstöður og orsök frávika

Niðurstöður heildarúttekta sýndu að vatnið stóðst kröfur reglugerðar eins og yfirleitt áður. Hins vegar komu fram nokkur frávik við reglubundið eftirlit og þá helst hjá minni veitum. Þau frávik voru vegna óæskilegra örvera í vatninu.

Á þessum þremur árum greindist E-coli í neysluvatni frá þremur til sex veitum, á hverju ári. Ekkert tilfellanna var mjög alvarlegt þ.e. fjöldi örvera var lítill (meðaltal mæligilda undir einum). E-coli í neysluvatni getur gefið vísbendingu um að vatnið sé mengað af sjúkdómsvaldandi örverum og skal því ætíð benda neytendum á að sjóða allt neysluvatn.

Meira var hins vegar um kólí og mikinn heildarörverufjölda án vísbendinga um sjúkdómsvaldandi örverur. Mengunin gefur aftur á móti vísbendingu um hugsanlega mengun frá yfirborðsvatni eða að sótthreinsun eins og geislun sé ekki að skila sínu. Á þessum árum komu slík tilfelli upp hjá 14 veitum. Uppruni frávikanna var óþekktur í þriðjungi tilfella og var þá gripið til þess ráðs að hreinsa lagnir nema í þeim tilfellum, þar sem ekki þótti ástæða til aðgerða. Það getur m.a. átt við þegar grunur leikur á að sýnið endurspegli ekki gæði vatnsins, t. d. hafi hugsanlega mengast.

Hjá fimm veitum var það sótthreinsunin sem hafði brugðist og var gefinn sólarhrings frestur til úrbóta. Það sama gilti, væri mengunin rakin til dreifikerfisins, gefinn var sólarhrings frestur til hreinsunar á lögnum og neytendum ráðlagt að sjóða neysluvatn. Þriðjung frávika mátti rekja til vatnsbólsins og reyndist helmingur þeirra vera vegna óverulegra frávika í sýrustigi, þar sem ekki var talin ástæða til aðgerða. Hins vegar virtist hinn helmingurinn vera vegna mengunar vatnsbólsins. Þá voru lagnir hreinsaðar og neytendum ráðlagt að sjóða neysluvatn.

Algengast er að mengun vatnsbóls sé vegna yfirborðsvatns. Sé frágangi ábótavant getur í leysingum og miklum rigningum yfirborðsvatn átt greiðan aðgang í vatnsbólið.

Í framtíðinni mun reyna meira á frágang vatnsbóla gangi eftir spádómar um loftslagsbreytingar með aukinni úrkomu og úrhellis rigningum.

  • Varðandi nánari upplýsingar um einstaka veitur er rétt að snúa sér til veitunnar.
  • Þá hafa sum sveitafélög og/eða heilbrigðiseftirlitssvæði sett inn á vefinn upplýsingar um neysluvatnið á svæðinu.

Ítarefni


Getum við bætt efni síðunnar?