Fara í efni

Sjúkdómar í hundum

Hundafár

Hundafár er alvarlegur sjúkdómur í hundum og þekkist hann einnig í mörgum öðrum tegundum kjötæta, þ.á.m. villtum hundum, refum, sléttuúlfum, pöndum, úlfum, frettum, skunkum, þvottabjörnum, stórum kattardýrum, selum og sumum tegundum prímata. Sýnt hefur verið fram á smit í köttum en slíkt má líklega rekja til náinna samskipta við hunda eða blóðgjafa úr smituðum köttum. Smit í köttum eru talin einkennalaus. Veiran hefur áhrif á öll líffærakerfi og hjá óbólusettum dýrum er dánartíðni há.

Orsök: Paramyxoviridae genus morbilli

Meðgöngutími: Allt að 6 vikur en í flestum tilfellum 1-4 vikur.

Einkenni: Einkennandi fyrir sjúkdóminn er tvífasa hiti; 3-6 dögum eftir smit kemur fram hækkaður líkamshiti og svo aftur nokkrum dögum síðar ásamt fleiri einkennum eins og útferð úr augum og nefi, hósti, jafnvel lungnabólga, slappleiki, lystarleysi og uppköst. Veiran leggst á taugakerfið og þá koma fram einkenni eins og vöðvakrampar og hundurinn hallar höfðinu og gengur í hringi. Í sumum tilfellum koma einkenni fyrst fram einhverjum vikum eftir smit og þá frá taugakerfi. Sjúkdómurinn er oft banvænn. Hjá hundum sem ná sér getur veiran fundist áfram í æða- og lithimnu augans, miðtaugakerfinu, eitlum og þófum þrátt fyrir að veirunni hafi verið útrýmt úr flestum líffærum og blóðinu. Þetta getur framkallað sk. „old dog encephalitis“ sem lýsir sér með einkennum frá taugakerfi sem geta staðið í nokkrar vikur og endar jafnan með dauða. Fólk er ekki móttækilegt fyrir hundafári.

Smitleið: Mjög smitandi – dropasmit - beint eða óbeint. Veiran lifir í nokkrar klukkustundir við herbergishita en lengur í kulda/raka.

Útbreiðsla: Fyrirfinnst um allan heim. Hefur komið upp á Íslandi nokkrum sinnum með alvarlegum afleiðingum, síðast á 7. áratug síðustu aldar. Telst ekki landlægt á Íslandi.

Greining: Veirugreining úr stroki úr nösum eða hornhimnu eða í blóði. Mótefnamæling.

Meðhöndlun: Stuðningsmeðferð. Fylgikvillar geta verið varanlegir og valdið sjúkdómi árum síðar.

Brúni hundamítillinn 

Brúni hundamítillinn hefur greinst í nokkur skipti á landinu og talinn hafa borist með ferðamönnum. Talið er að tekist hafi að útrýma hundamítlunum hér á landi.

Orsök: Brúni hundamítillinn Rhipicephalus sanguineus og ameríski hundamítillinn Dermacentor variabilis

Móttækilegar dýrategundir: Þrífast helst á hundum en getur leitað á aðrar tegundir þegar hann nær ekki á aðaltegundina.

Meðgöngutími: Brúni hundamítillinn lifir allan sinn lífsferil á dýrinu ólíkt fuglamítlunum sem greinast hér á landi. Ameríski hundamítillinn hefur gjarna lítil villt spendýr sem millihýsla en getur lifað allt að 2 ár á hvaða stigi sem er utan hýsils og hinn í allt að ár.

Einkenni: Dýr finna lítið fyrir mítlastungu en geta fengið ertingu umhverfis bitstað. Erlendis er þekkt að brúni hundamítillinn geti borið smitefnin Ehrlichia canis og Babesia canis sem valda sjúkdómum í hundum en þessi smitefni hafa ekki fundist hér á landi. Jafnframt er vitað að þessi mítill geti borið bakteríuna Rickettsia conorii, sem getur valdið sjúkdómi í fólki og er landlæg í löndum við Miðjarðarhafið (Mediterranean spotted fever) en hefur ekki fundist hér.

Smitleið: Ameríski hundamítillinn hefur gjarna lítil villt spendýr sem millihýsla en getur lifað allt að 2 ár á hvaða stigi sem er utan hýsils og hinn í allt að ár. Brúni hundamítillinn er ekki ólíkur skógarmítlinum (Ixodes ricinus) og lundamítlinum (Ceratixodes uriae) í útliti en er frábrugðinn þeim að því leyti að hann getur farið í gegnum öll þroskastig og alið allan sinn aldur innanhúss. Hundamítillinn getur fjölgað sér hratt við hentugar aðstæður, t.d. í hlýju íbúðarhúsnæði. Hann getur komið sér fyrir í sprungum í veggjum og gólfi, bak við lista o.s.frv. og verpt þar eggjum. Lirfur hans nærast helst á blóði úr hundum en geta líka látið sér nægja önnur spendýr, t.d. nagdýr. Fullorðnir hundamítlar nærast helst á blóði úr hundum en geta líka farið á önnur dýr og menn. Að sumri til er orðið nokkuð algengt að vart verði við skógarmítla, og lundamítlar eru landlægir í sjófuglabyggðum, en óvanalegt er að finna mítla á gæludýrum á þessum árstíma nema ef um er að ræða mítla sem geta fjölgað sér innanhúss eins og hundamítillinn.

Útbreiðsla: Brúni hundamítillinn er algengur um allan heim. Ameríski hundamítillinn er fyrst og fremst á austurströnd Bandaríkjanna. Samkvæmt upplýsingum frá sérfræðingum á Keldum hefur Brúni hundamítillinn aðeins fundist fimm sinnum áður á hundum hér á landi (1978 – 2010) og þrisvar sinnum á innfluttum hundum í einangrunarstöð. Uppræting hefur tekist í öllum tilvikum og mítillinn því ekki talinn landlægur hér á landi.

Greining: Leit í feld eftir mítlum

Meðhöndlun: Virk sníkjudýralyf gegn mítlum. Þarf að endurtaka og þrífa ítrekað sérstaklega vel allt umhverfi innandyra. Samhliða meðhöndlun á hundum sem mítillinn greinist á þarf að ryksuga allt á heimilinu í hólf og gólf, sérstaklega staði sem mítlarnir geta leynst á s.s. í sprungum, undir listum, þröskuldum o.s.frv. Bæli hundsins, teppi, fatnað o.s.frv. þarf að þvo. Bent skal á að mítillinn þolir illa kulda þannig að frysting getur verið ráð í sumum tilvikum. Ef mikill fjöldi mítla er í húsnæðinu gæti þurft að leita til meindýraeyðis.

Flær

Orsök: Fleiri tegundir finnast af flóm (>2200 tegundir) en aðeins nokkrar tegundir smita helst hunda og ketti og þá helst Ctenocephalides canis (hundaflóin), Ctenocephalides felis (kattaflóin) og Pulex simulans (minni spendýr).

Móttækilegar dýrategundir: Ólíkar tegundir flóa geta smitað ólíkar tegundir hýsla, en þrífast helst á sínum aðalhýsli

Meðgöngutími: Allt eftir umhverfisaðstæðum getur lífsferill verið frá 2 vikum til eitt ár. En við dæmigerðar aðstæður innandyra getur flóin klárað lífsferil á 3-8 vikum. Lirfustigið varir 5-11 daga en getur orðið allt að 2-3 vikur eftir umhverfi og aðgengi að næringu. Forstig fullorðinna flóa geta legið í dvala í allt að ár þar til hún kemst í snertingu við smitnæmt dýr kemur. Við góð skilyrði getur fullorðin fló lifað í allt að 2 vikur áður en hún þarf blóð.

Einkenni: Flær geta ert húðina og valdið flóaofnæmi, bæði í dýrum og á fólki. Flær geta líka borið með sér bakteríusjúkdóma og sníkjudýr. Kattflóin getur fjölgað sér bæði á hundum og köttum.

Smitleið: Lirfur þola ekki raka undir 50% í lengri tíma. Geta hoppað milli hýsla eða borist frá smituðu umhverfi.

Útbreiðsla: Um allan heim

Greining: Við kembingu eða t.d. límbandssýni. Saur flóanna oft áberandi á dýrum með mikið smit.

Meðhöndlun: Sníkjudýrameðhöndlun með lyfjum sem ná til flóa

Uppfært 27.02.2025
Getum við bætt efni síðunnar?