• Email
  • Prenta

Gripagreiðslur


Samkvæmt mjólkursamningi 2005-2012 sem framlengur var til ársloka 2014, miðast gripagreiðslur við allt að 27.400 árskýr. Séu árskýrnar færri verður greiðsla á hvern grip hærri sem því nemur.. 

Hafa skal hafa í huga að sú heildartala sem reiknað er frá er fjöldi árskúa sem skráðar eru í einstaklingskerfið MARK.

Hlutdeild hvers framleiðanda í heildarupphæð gripagreiðslna á hverju verðlagsári fer eftir fjölda árskúa hans. Gripagreiðslur greiðast mánaðarlega og er fjöldi árskúa uppfærður á fjögurra mánaða fresti. Breytingar á gripagreiðslum taka gildi tveimur mánuðum eftir að fjöldi árskúa hefur verið uppfærður.

Gripagreiðslur skerðast ef fjöldi árskúa á lögbýli er yfir þeim mörkum sem hér greinir.
 

Fjöldi árskúa

Hlutfall greiðslu

1-40 kýr

100%

41-60 kýr

75%

61-80 kýr

50%

81-100 kýr

25%

101 og fleiri kýr

0%

 

Samkvæmt þessum reglum fær bóndi sem er með 170 kýr ekki hærri gripagreiðslur en bóndi sem er með 100 kýr þar sem ekki eru greiddar neinar gripagreiðslur á kýr umfram 100. Ef fjöldi árskúa á lögbýli fer yfir 170 byrja gripagreiðslurnar að skerðast hlutfallslega þannig að heildargripagreiðslur á búi sem er með 171-180 kýr skerðast um 25% og þannig koll af kolli fyrir hverjar 10 árskýr sem umfram eru. Bú sem er með fleiri en 200 árskýr fá engar gripagreiðslur. Sjá meðfylgjandi töflu.


Fjöldi árskúa

Skerðing

>170 - 180 kýr

25%

>180 -190 kýr

50%

>190 - 200 kýr

75%

fleiri en 200 kýr

100%


Fyrstu 40 kýrnar á hverju lögbýli fá alltaf fulla greiðslu að 170 kúm. Þannig fær bú sem er með t.d. 30 kýr fullar greiðslur, bú með 55 kýr fær fullar greiðslur vegna fyrstu 40 og síðan 75% af næstu 15 kúnum. Bú með 76 kýr fær fullar greiðslur fyrir fyrstu 40, 75% greiðslur fyrir 20 næstu kýr og loks 50% greiðslur fyrir síðustu 16 kýrnar.

Gripagreiðslur til eigenda kúa samkvæmt samningi um starfsskilyrði mjólkurframleiðslunnar er krónur 581 milljónir króna fyrir árið 2011 og nemur sú upphæð 10% af heildarstuðningi til kúabænda.
 
Hversu háar gripagreiðslurnar eru í raun fer eftir hversu margar kýr eru skráðar í gagnagrunninum MARK. Gripagreiðslur fyrir hvern grip reiknast sem hlutfall heildarupphæðar gripagreiðslna á móti heildarfjölda árskúa. Fjöldi árskúa í október 2011 er  26.212 árskýr.

Samkvæmt 2. gr. reglugerðar um gripagreiðslur á lögbýlum er  skilgreining á árskúm svohljóðandi.
 
„Árskýr. Meðalfjöldi einstaklingsmerktra kúa á lögbýli yfir 12 mánaða tímabil. Kýrnar verða að hafa borið að minnsta kosti einum kálfi skv. upplýsingum úr MARK.“

Uppfært 10.10.11