• Email
 • Prenta

Íblandað koffín í matvælum

Á þessari síðu er að finna eftirfarandi upplýsingar um notkun koffíns í matvælum:


Algengt er að koffíni sé blandað í drykkjarvörur og stundum í önnur matvæli vegna þeirra lífeðlisfræðilegu áhrifa sem það hefur. Það er þá ýmist notað á formi hreins íblandaðs koffíns (e. caffeine anhydrous) eða sem jurtir eða útdráttur (e. extract) af jurtum sem innihalda koffín s.s. kaffibaunir, grænt te, guarana, yerba maté og kakóbaunir.

Koffín verkar fyrst og fremst örvandi á líkamann í gegnum miðtaugakerfið.  Sjá upplýsingasíðu Matvælastofnunar um áhrif koffíns.

Hámarksgildi

Samkvæmt reglugerð nr.  327/2010  um gildistöku reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins nr. 1925/2006. (sbr. breyting nr. 453/2014) eru almenn hámarksgildi fyrir koffín sem bætt er í matvæli í þeim tilgangi að ná fram lífeðlisfræðilegum áhrifum eftirfarandi:

Tegundir matvæla

Hámarksmagn koffíns (þ.m.t. íblöndun kjarna/útdrátta náttúrulegra koffíngjafa)

Áfengi

0 mg/l

Drykkjarvörur (aðrar en áfengi)

320 mg/l

Fæðubótarefni

300 mg í ráðlögðum daglegum neysluskammti

Önnur matvæli

150 mg/kg


Hámarksgildi taka til heildarmagns koffíns í vörum og breytir þá engu hvort um er að ræða íblöndun hreins koffíns, útdrátta (e. extract) eða náttúrulega koffíngjafa.  Óheimilt er að framleiða, markaðssetja eða flytja inn vörur með íblönduðu koffíni þar sem heildarmagnið er meira en kemur fram í töflunni að ofan, nema með sérstöku leyfi frá Matvælastofnun.

Merkingar

Fyrir matvæli sem innihalda mikið koffín eða innihalda viðbætt koffín eru sérstakar kröfur um merkingar.  Þær kröfur koma fram í III. viðauka reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 1169/2011 sem gildir á Íslandi með reglugerð nr. 1294/2014. 

Þessar merkingar er skylt að hafa á íslensku.

Tegund matvæla

Merking

Drykkir sem innihalda 150 mg/L af koffíni eða meira (að undanskildum te- og kaffidrykkjum þegar heiti þeirra inniheldur hugtakið „kaffi“ eða „te“).

„Inniheldur mikið af koffíni.  Ekki æskilegt fyrir börn eða barnshafandi konur eða konur með barn á brjósti“ og þar á eftir upplýsingar um magn koffíns í mg/100 mL

Matvæli (þ.m.t. fæðubótarefni) (önnur en drykkjarvörur) sem innihalda íblandað koffín í lífeðlisfræðilegum tilgangi.

 „Inniheldur koffín. Ekki æskilegt fyrir börn eða barnshafandi konur eða konur með barn á brjósti“ og þar á eftir upplýsingar um magn koffíns í mg/100 g eða mL.  Ef um fæðubótarefni er að ræða skal magn koffíns gefið upp í einum ráðlögðum dagskammti.

 

Umsókn um leyfi til íblöndunar koffíns umfram almenn hámarksgildi

Frá og með 1. janúar 2015 er hægt að sækja um leyfi fyrir framleiðslu, markaðssetningu eða innflutningi vara sem innihalda koffín umfram ofangreind hámarksgildi. Ef framleiða á, flytja inn eða dreifa matvælum sem innihalda íblandað koffín umfram almenn hámarksgildi sem sett voru með reglugerð nr. 453/2014 þarf að sækja um leyfi hjá Matvælastofnun. 

Umsóknareyðublöð eru aðgengileg á Þjónustugátt MAST.

Matvælastofnun skal taka gjald fyrir móttöku umsóknar, mat á umsókn og leyfisveitingu.  Umsókn telst ekki hafa verið lögð fram fyrr en allar tilskildar upplýsingar og greiðsla hafa verið lögð fram.

Í umsókn skulu eftirfarandi upplýsingar koma fram:

 1. Nafn umsóknaraðila, heimilisfang, símanúmer og netfang
 2. Nafn og heimilisfang framleiðanda. Ef framleiðandi er ekki skráður á Íslandi skulu einnig koma fram upplýsingar í samræmi við 3. tl.
 3. Nafn og heimilisfang innflutningsaðila sem er ábyrgur fyrir upphaflegri markaðssetningu vöru á Íslandi
 4. Vöruheiti
 5. Form/uppruni íblandaðs koffíns í vöru
 6. Magn íblandaðs koffíns í vöru
 7. Neyslueiningar - þ.e. töflur, hylki o.s.frv. ef um fæðubótarefni er að ræða
 8. Ráðlagður daglegur neysluskammtur ef um fæðubótarefni er að ræða
 9. Heildarmagn koffíns í vöru (náttúrulegt koffíninnihald auk viðbætts koffíns)
 10. Tilgreining innihaldsefna vöru (öll innihaldsefni)
 11. Lýsing á merkingum og notkunarleiðbeiningum sem eru á umbúðum eða fylgja vöru (t.d. sýnishorn af umbúðum)
 12. Orkuinnihald vöru, mælt í kJ og kkal
 13. Hvort umsóknaraðili hafi upplýsingar um að vara hafi þegar verið markaðssett með löglegum hætti í öðru EES-ríki, sbr. reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 764/2008 frá 9. júlí 2008 um málsmeðferð við beitingu tiltekinna innlendra tæknireglna vegna löglega markaðssettrar vöru í öðru aðildarríki og um niðurfellingu á ákvörðun 3052/95/EB.

Forskoðun

Þegar umsókn berst Matvælastofnun sendir stofnunin umsækjanda greiðsluseðil vegna forskoðunar sem umsækjandi hefur 2 vikur til að greiða. Eftir að gengið hefur verið frá greiðslu fer fram forskoðun á vörunni, en í henni felst:  

 1. Hvort öll nauðsynleg gögn fylgja (sbr. upptalningu í að ofan)
 2. Hversu umfangsmikil vinna þarf að fara fram innan Matvælastofnunar vegna mats á umsókn
 3. Hvort og til hvaða sérfræðiaðila skal leita til að fá umsögn

Berist greiðsla fyrir forskoðun ekki innan 2 vikna frá útsendingu greiðsluseðils mun stofnunin líta svo á að fallið hafi verið frá umsókninni. Málið verður þá fellt niður án frekari skoðunar/aðgerða. 

Matvælastofnun lýkur forskoðun innan 10 virka daga frá því að greiðsla fyrir hana barst. 

Mat á vöru

Þegar forskoðun er lokið og  fyrir liggur til hvaða sérfræðiaðila Matvælastofnun þarf að leita vegna umsagnar, hvort öll gögn hafi borist og hve mikla vinnu Matvælastofnun áætlar að þurfa sjálf að leggja fram vegna matsins er sendur út annar greiðsluseðill fyrir mat á umsókninni/vörunni, sem umsækjandi þarf að greiða innan 2 vikna.  

Þegar að seinni greiðslan hefur borist Matvælastofnun hefst eiginlegt mat á  því hvort veita skuli leyfi fyrir markaðssetningu vörunnar.

Berist greiðsla vegna mats á umsókn ekki  innan 2 vikna frá því að greiðsluseðillinn er sendur út verður litið svo á að fallið sé frá umsókninni. Málið verður þá fellt niður án frekari skoðunar/aðgerða.

Umsókn telst því aðeins hafa verið lögð fram þegar greiðslur fyrir forskoðun og mati hafa borist stofnuninni sem og öll umbeðin gögn. 

Ákvörðun um leyfi eða synjun leyfis

Niðurstaða um fyrirhugaða ákvörðum Matvælastofnunar um leyfi eða synjun leyfis verður kynnt umsækjanda, eigi síðar en 5 mánuðum eftir að leyfisumsókn telst hafa verið lögð fram. Ef stofnunin synjar um leyfi er umsækjanda veittur 2 vikna frestur til andmæla.  Berist andmæli gefur Matvælastofnun sér 10 virka daga til að taka afstöðu til þeirra og tilkynna um endanlega ákvörðun. Berist ekki andmæli verður endanleg ákvörðun send umsækjanda innan 10 virkra daga frá því að andmælafrestur rann út.  Endanleg ákvörðun um leyfi eða synjun leyfis mun því liggja fyrir eigi síðar en 6 mánuðum frá því að umsókn telst hafa verið lögð fram.

Áhættumat yfirvalds annars ríkis liggur fyrir

Í þeim tilfellum þar sem áhættumat yfirvalds annars ríkis á EES svæðinu vegna viðkomandi vöru hefur verið lagt fram með umsókn skal niðurstaða um fyrirhugaða ákvörðum Matvælastofnun um leyfi eða synjun leyfis kynnt umsækjanda eigi síðar en 2 mánuðum eftir að leyfisumsókn telst hafa verið lögð fram. Ef stofnunin synjar um leyfi er umsækjanda veittur 2 vikna frestur til andmæla. 

Umsókn telst hafa verið lögð fram þegar greiðsla fyrir forskoðun barst og öll gögn lágu fyrir að því gefnu að greiðsla fyrir mat á vöru hafi einnig borist. 

Berist andmæli gefur Matvælastofnun sér 10 virka daga til að taka afstöðu til þeirra og tilkynna um endanlega ákvörðun. Berist ekki andmæli verður endanleg ákvörðun send umsækjanda innan 2 vikna frá því að andmælafrestur rann út.  Endanleg ákvörðun um leyfi eða synjun leyfis mun því í slíkum tilfellum liggja fyrir eigi síðar en 3 mánuðum frá því að umsókn telst hafa verið lögð fram.

Kostnaður við umsóknir

Umsækjendur greiða allan kostnað við forskoðun og mat á umsóknum. Greitt er í samræmi við gjaldskrá. Ef ekki er greitt telst umsókn ekki hafa verið lögð fram. Hér að neðan má sjá kostnaðarliði vegna umsókna. Kostnaður fer eftir því hvort og til hve margra utanaðkomandi aðila þarf að leita vegna umsókna og hvort samskonar vara hefur verið metin áður.

Hér má sjá kostnaðarliði vegna umsóknar um leyfi vegna koffíns umfram hámarksgildi:

Aðgerð

Kostnaður

Athugasemd

Forskoðun og umsýsla  (2 klst)

18.700 kr.

Alltaf framkvæmt.

Áhættumat framkvæmt hjá Matvælastofnun  (8 klst)

74.800 kr.

Allt áhættumat framkvæmt hjá Matvælastofnun.  Umsagna ekki leitað hjá öðrum.

Áhættumat framkvæmt hjá Matvælastofnun - samskonar vara áður skoðuð (4 klst)

37.400 kr.

Einungis framkvæmt þegar samskonar/svipuð vara hefur áður verið metin.  Þá ekki leitað nýrra umsagna eða áhættumat gert frá grunni.

Áhættumat og mat á umsögn(um) ytri aðila (4 klst).

37.400 kr.

Einungis þegar leitað er umsagna ytri aðila.

Mat/skoðun á áhættumati frá stjórnvaldi annars ríkis (4 klst)

37.400kr.

Ef slíkt áhættumat er lagt fram með umsókn.

Ritun rökstuðnings vegna ákvörðunar  (2 klst)

18.700 kr.

Alltaf framkvæmt.

Umsögn frá Rannsóknarstofu H.Í. í Næringarfræðum (8 klst)

98.400 kr.

Forskoðun ákvarðar hvort framkvæma þurfi þessa aðgerð.

Umsögn frá Embætti landlæknis (8 klst)

80.000 kr.

Forskoðun ákvarðar hvort framkvæma þurfi þessa aðgerð.

Umsögn frá Rannsóknarstofu H.Í. í lyfja- og eiturefnafræðum (8 klst)

115.864 kr.

Forskoðun ákvarðar hvort framkvæma þurfi þessa aðgerð.


 

Drykkjavörur með leyfi frá Matvælastofnun

Frá 1. janúar 2015 hefur verið hægt að sækja um leyfi til framleiðslu, markaðssetningar eða innflutnings drykkjarvara (annarra en áfengis) sem innihalda koffín umfram 320 mg/l. Hámarksgildi taka til heildarmagns koffíns í vörum og breytir þá engu hvort um er að ræða íblöndun hreins koffíns, útdrátta (e. extract) eða náttúrulegra koffíngjafa.

Allar vörur sem innihalda koffín umfram 150 mg/l (að undanskildum te- og kaffidrykkjum þegar heiti þeirra inniheldur hugtakið „kaffi“ eða „te“) skulu samkvæmt reglugerð merktar með eftirfarandi orðum, á íslensku:

„Inniheldur mikið af koffíni. Ekki æskilegt fyrir börn eða barnshafandi konur eða konur með barn á brjósti“

Þar á eftir upplýsingar um magn koffíns í mg/100 mL

Drykkjavörur sem fengið hafa leyfi frá Matvælastofnun bera auk þessa sérstakar varúðarmerkingar og geta verið háðar skilyrðum um markaðssetningu. Kröfur og skilyrði fyrir hverja vöru fara eftir því hvaða upplýsingar koma fram á umbúðum og hvernig varan er markaðssett í heild sinni. Ákvörðun Matvælastofnunnar um leyfi byggist á áhættumati frá RÍN (Rannsóknarstofu Háskóla Íslands í næringarfræði) en allar umsóknir sem berast stofnuninni eru sendar RÍN til umsagnar.

RÍN leggur vísindaálit Matvælaöryggisstofnunar Evrópu (EFSA) um öryggi koffíns sem og aðrar heimildir, bæði erlendar og innlendar, til grundvallar faglegu mati.

Sérhvert leyfi er bundið tiltekinni vöru, þ.e. stærð dósar og bragðtegunda sem sótt var um. Ekki er leyfilegt að breyta eða fjarlæga merkingar sem Matvælastofnun setur kröfur um við leyfisveitingu og skal fyrirtæki sjá til þess að upplýsingarnar séu réttar og að markaðssetning vörunnar sé ekki villandi.

Eftirlit á markaði er í höndum Heilbrigðiseftirlits sveitafélaga. Þau skulu, hvert á sínu svæði, fylgja því eftir að kröfur og skilyrði sem Matvælastofnun hefur sett fyrir leyfisveitingu fyrir viðkomandi vöru séu uppfyllt. Leyfishafi, þ.e. fyrirtæki sem sækir um markaðssetningu vöru, ber ábyrgð á að koma upplýsingum um sölubann á vöru til barna yngri en 18 ára eða öðrum takmörkunum á dreifingu sem Matvælastofnun setur, á framfæri við smásöluaðila.

Helstu varúðarmerkingar sem kröfur hafa verið gerðar um að skuli koma á umbúðum vara á íslensku og í leturstærð a.m.k. 3 mm:

 •             „MJÖG HÁTT KOFFÍNINNIHALD“ og magn koffíns í neyslueiningunni (dósinni) í mg og í 100 ml.

Tilgangurinn með þessu er að gera neytendum kleift að greina á milli drykkjavara annars vegar með hátt innihald koffíns og hins vegar með MJÖG HÁTT koffíninnihald. Drykkjavörur sem hafa fengið leyfi frá Matvælastofnun innihalda á bilinu 180 – 200 mg koffín í neyslueiningu. Þetta er mjög mikið koffín og því æskilegt að þessar upplýsingar séu auðlesanlegar. Þess vegna hefur stofnunin einnig sett lágmarksleturstæð (3mm). Þannig geta neytendur gert skýran greinarmun á þessum vörum og drykkjavörum sem innihalda mun minna koffín.

 •            „Ekki selt börnum undir 18 ára aldri“

Íslensk börn drekka að meðaltali mikið af gosdrykkjum, meira en börn á hinum Norðurlöndunum. Heilsu barna getur verið ógnað vegna þessara drykkja þar sem að með neyslu þeirra geta þau á stuttum tíma innbyrt það magn koffíns sem gæti valdið bráðum eitrunaráhrifum. Umræddar drykkjavörur eru markaðssettar sem bragðbættir kolsýrðir drykkir og er það mat stofnunarinnar að það verði að líta svo á að þessar drykkjavörur séu í samkeppni við aðra gosdrykki og höfði sérstaklega til barna. Matvælastofnun hefur ákveðið að markaðssetning varanna eigi því að einskorðast við fullorðna og sala/aðgangur barna að þessum vörum sé bannaður einstaklingum undir 18 ára. Vörur sem innihalda svo mikið magn af koffíni eru heilsuspillandi fyrir börn og uppfylla þannig ekki 8. gr. a. laga um matvæli.

Helstu varúðarmerkingar sem skulu koma fram á umbúðum vara á íslensku, eftir því sem við á:

 • „Neytið drykkjarins ekki með öðrum koffíngjöfum“
 • „Hámarks skammtur:  X dósir á dag“
 • „Drekkið ekki meira en eina dós samhliða mikilli líkamlegri áreynslu“ (eða sambærileg)
 • „Blandið ekki með áfengi“

Sölubann:

Ekki má selja vöruna til barna yngri en 18 ára og er það á ábyrgð söluaðila (leyfishafa) að koma þeim upplýsingum á framfæri við smásöluaðila. Matvælastofnun gerir kröfur um að leyfishafi upplýsi smásöluaðila, þ.e. verslanir eða sölustaði um þetta bann og geri ráðstafanir í verslunum/sölustöðum þannig að vörurnar séu ekki aðgengilegar börnum undir 18 ára.

Matvælastofnun krefst þess einnig, við leyfisveitingu,  að fá upplýsingar um þau tilmæli og/eða upplýsingar sem verða gefnar og þau gögn sem verða notuð við markaðssetningu vöru í verslunum/sölustöðum. Þetta getur verið mismunandi eftir stærð verslana og því mikilvægt að fá samræmingu eins og kostur er og þannig tryggja markaðseftirlit og öryggi neytenda.

Eftirfarandi drykkjavörur hafa fengið leyfi:

Vara

Fyrirtæki/leyfishafi

Koffínmagn /dós

Koffínmagn /100 ml

Myndir

Celsius

Fitnes Akademían ehf.

200 mg/355 ml

56 mg

 Mynd 1, Mynd 2

AminoPro

RJC Framleiðsla ehf.

180 mg/330 ml

55 mg

 Mynd 1, Mynd 2

Moose Juice

Einstök Matvara ehf.

100 mg/250 ml

40 mg

 Mynd 1

Clean Drink

Líkami og lífsstíll ehf.

180 mg/330 ml

55 mg

 Mynd 1, Mynd 2

Nocco 180 mg

Core ehf.

180 mg/330 ml

55 mg

 Mynd 1, Mynd 2


Eftirfarandi drykkjavörur eru í umsagnarferli:

Vara

Fyrirtæki/leyfishafi

Koffínmagn /dós

Koffínmagn /100 ml

XYIence®

Aran ehf.

176 mg/473 ml

37 mg

NJIE®

Omax ehf.

180 mg/330 ml

55 mg

Gainomax

Aðföng ehf.

180 mg/330 ml

55 mg


Hafa skal í huga að vörur sem eru í umsagnarferli mega ekki vera á markaði fyrr en fyrirtæki hafa fengið leyfi frá Matvælastofnun. Fyrirtæki geta einnig dregið umsókn til baka.