• Email
  • Prenta

Gildandi reglugerð

Vegna þess að íblöndun vítamína, steinefna og annarra efna í matvæli var mismunandi í hinum ýmsu Evrópulöndum, þ.m.t. á Íslandi, þótti nauðsynlegt að setja samræmdar reglur á vettvangi Evrópusambandsins.

Evrópska og íslenska reglugerðin

Innan Evrópusambandsins gildir reglugerð Evrópuþingsins og -ráðsins (EB) nr. 1925/2006 um íblöndun vítamína og steinefna og tiltekinna annarra efna í matvæli. Hún tók gildi þann 19. janúar 2007 og kom til framkvæmda þann 1. júlí 2007.

Á Íslandi hefur þessi reglugerð verið innleidd með reglugerð nr. 327/2010 um gildistöku reglugerðar Evrópusambandsins nr. 1925/2006. Hún tók gildi hérlendis þann 6. mars 2010.

Breytingar

Reglugerð nr. 327/2010 hefur verið breytt nokkrum sinnum en helst ber að nefna eftirfarandi breytingar:

Reglugerðir nr. 1166/2011, nr. 914/2012 og nr. 964/2014 breyta viðauka reglugerðar nr. 327/2010. Reglugerð nr. 453/2014 sem er séríslensk setur sérstakar reglur um íblöndun koffíns í matvælum.

Gildissvið reglugerðarinnar

Reglugerðin gildir um valfrjálsa íblöndun vítamína og steinefna og tiltekinna annarra efna í matvæli almennt. Ákvæði reglugerðarinnar varðandi vítamín og steinefni gilda þó ekki um fæðubótarefni (reglugerð nr. 624/2004) eða þar sem skylt er að bæta í vítamínum og steinefnum, t.d. skv. reglugerð um matvæli sem eru ætluð ungbörnum og smábörnum (reglugerð nr. 834/2014). Þegar vítamínum eða steinefnum er bætt í matvæli sem aukaefni gildir ekki reglugerð um íblöndun heldur þarf íblöndunin þá að vera í samræmi við reglugerð nr. 978/2011 um aukaefni í matvælum.

Oft er samsetning tiltekinna matvælaflokka undir gildissviði annarra sérreglna og þegar það á við gilda í þessum tilvikum báðar reglugerðir. Í sumum tilvikum gera þessar sérreglur sérstakar kröfur um íblöndun vítamína, steinefna og annarra efna í matvæli. Þegar þetta á við hafa skyldukröfur þessara reglugerða forgang umfram ákvæði í reglugerð um íblöndun. 

Reglugerðin um íblöndun gildir sem sagt með fyrirvara um sértæk ákvæði sem mælt er fyrir um í reglugerðum um:

  • fæðubótarefni,
  • matvæli sem eru ætluð ungbörnum og smábörnum, matvæli sem eru notuð í sérstökum læknisfræðilegum tilgangi og þyngdarstjórnunarfæði í stað alls annars fæðis,
  • nýfæði og innihaldsefni í nýfæði (e. Novelfood),
  • erfðabreytt matvæli,
  • aukaefni og bragðefni,
  • leyfilegar, vínfræðilegar vinnsluaðferðir og vinnslu (e. Oenological practices and processes).

Takmarkanir varðandi íblöndun

Ekki má blanda skv. 4.gr. reglugerðarinnar vítamínum og steinefnum í óunnin matvæli. Dæmi um slíkt eru ávextir, grænmeti, kjöt, kjúklingur og fiskur. Þá má ekki blanda vítamínum og steinefnum í drykkjarvörur sem innihalda 1,2% eða meira af alkóhóli miðað við rúmmál.