• Email
  • Prenta

Koffín í fæðubótarefnum

Koffín er algengt innihaldsefni í fæðubótarefnum.  Það er ýmist notað á formi hreins íblandaðs koffíns (e. caffeine anhydrous) eða sem jurtir eða útdráttur (e.extract) af jurtum sem innihalda koffín s.s. kaffibaunir, grænt te, guarana, yerba maté og kakóbaunir. Koffín er notað í fæðubótarefnum vegna þeirra lífeðlisfræðilegu áhrifa sem það hefur. Fyrst og fremst verkar það örvandi á líkamann í gegnum miðtaugakerfið.

Hámarksgildi

Samkvæmt reglugerð nr. 327/2010  um gildistöku reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins nr. 1925/2006 (sbr. breyting nr. 453/2014) er almennt hámarks heildar magn koffíns í fæðubótarefnum 300 mg í þeim dagsskammti sem ráðlagður er á umbúðum viðkomandi vöru.

Óheimilt er að framleiða, markaðssetja eða flytja inn fæðubótarefni með íblönduðu koffíni þar sem heildarmagnið er meira 300 mg/dag, nema með sérstöku leyfi frá Matvælastofnun.

Umsókn um leyfi

Frá og með 1. janúar 2015 er hægt að sækja um leyfi fyrir framleiðslu, markaðssetningu eða innflutningi vara sem innihalda koffín umfram ofangreint hámarksgildi.  

Merkingar

Fyrir matvæli þ.m.t. fæðubótarefni sem innihalda mikið koffín eða innihalda viðbætt koffín eru sérstakar kröfur um merkingar.  Þær kröfur koma fram í III. viðauka reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 1169/2011 sem gildir á Íslandi. Athuga þarf að þessar merkingar er skylt að hafa á íslensku og eins og kemur fram í töflu að neðan:

Tegund matvæla

Merking

Drykkir sem innihalda 150 mg/L af koffíni eða meira (að undanskildum te- og kaffidrykkjum þegar heiti þeirra inniheldur hugtakið „kaffi“ eða „te“).

„Inniheldur mikið af koffíni.  Ekki æskilegt fyrir börn eða barnshafandi konur eða konur með barn á brjósti“ og þar á eftir upplýsingar um magn koffíns í mg/100 mL

Matvæli (þ.m.t. fæðubótarefni) (önnur en drykkjarvörur) sem innihalda íblandað koffín í lífeðlisfræðilegum tilgangi.

 „Inniheldur koffín. Ekki æskilegt fyrir börn eða barnshafandi konur eða konur með barn á brjósti“ og þar á eftir upplýsingar um magn koffíns í mg/100 g eða mL.  Ef um fæðubótarefni er að ræða skal magn koffíns gefið upp í einum ráðlögðum dagskammti.