• Email
  • Prenta

Innflutningur skrautfiska og vatnadýra

Hér er að finna leiðbeiningar fyrir innflytjendur skrautfiska og vatnadýra um hvað beri að gera þegar innflutningur er undirbúinn. 

ATH! Þessar leiðbeiningar gilda fyrir innflutning á skrautfiskum/vatnadýrum frá landi innan EES. Sé um að ræða innflutning frá löndum utan EES skal opinbert heilbrigðisvottorð fylgja sendingunni og tilkynna skal innflutninginn með a.m.k. 24 klst fyrirvara. Sjá nánar um innflutning frá þriðju ríkjum hér

Innflutningur skrautfiska og vatnadýra er óheimill nema að fengnu leyfi Matvælastofnunar og uppfylltum skilyrðum reglugerðar nr. 935/2004 um innflutning gæludýra og hundasæðis.

1. Umsókn um innflutningsleyfi
2. Einangrun í 4 vikur - úttekt Matvælastofnunar á aðstöðu
3. Heilbrigðis- og upprunavottorð
4. Flugferðin til Íslands - innflutningsstaður
5. Kostnaður við innflutning, öflun vottorða, sýnatökur, eftirlit og einangrun
6. Mikilvæg heimilisföng, símanúmer og vefsíður1. Umsókn um innflutningsleyfi

Smellið hér til að sækja umsóknareyðublað. Innflytjandi skuldbindur sig og staðfestir með undirskrift sinni á umsóknareyðublað að hlíta í hvívetna öllum þeim fyrirmælum sem atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra og Matvælastofnun setja sem skilyrði til innflutnings og einangrunar. Ef ekki verða sérstakar tafir getur afgreiðsla umsóknar tekið u.þ.b. viku.

Þegar umsóknin hefur verið afgreidd, fær umsækjandi senda tilkynningu um veitingu innflutningsleyfis. 

Innflutningsleyfi gildir í eitt ár og einungis er heimilt að flytja inn einu sinni á hvert útgefið leyfi.

2. Einangrun í 4 vikur - úttekt Matvælastofnunar á aðstöðu

Skrautfiskum og vatnadýrum sem heimilað hefur verið að flytja til landsins skal haldið í einangrun fyrstu fjórar vikurnar eftir innflutning. Ef um fyrsta innflutning er að ræða þarf að hafa samband við Matvælastofnun áður en fiskarnir/vatnadýrin eru flutt til landsins og óska eftir að gerð verði úttekt á aðstöðu fyrir sóttkví (gildir einnig um heimaeinangrun).

Sóttkví hjá verslunaraðilum skal vera lokað rými þar sem tiltekinn starfsmaður ber ábyrgð á allri umönnun dýra og umgengni. Starfsmaður skal nota sérstakan hlífðarfatnað við störf sín í sóttkvínni sem ekki er notaður utan hennar. Starfsmaður skal gæta fyllsta hreinlætis, m.a. skal hann ætíð þvo og sótthreinsa hendur sínar að loknum störfum sínum í sóttkvínni.

Nægilegt búrarými skal vera til staðar og niðurfall í gólfi. Fóðurleifum, sjálfdauðum dýrum og öðru sem dýrin leggja frá sér skal safnað saman og fargað í samræmi við ákvæði 24. gr. áðurnefndrar reglugerðar. Á milli sendinga skal rýmið þrifið og sótthreinsað.

Sóttkví hjá einkaaðilum skal uppfylla ofangreind skilyrði eftir því sem við á, þó er ekki krafist lokaðs rýmis.

3. Heilbrigðis- og upprunavottorð

Hafa þarf samband við dreifingaraðila í útflutningslandinu vegna heilbrigðisvottorðs. Innan tíu daga fyrir innflutning skal dýralæknir fylla út heilbrigðisvottorð og staðfesta að fiskarnir/dýrin hafi engin einkenni smitsjúkdóms.

Eftirfarandi skal staðfest í heilbrigðis- og upprunavottorði fyrir skrautfiska og vatnadýr:

  1. Útflutningsland skrautfiskanna/vatnadýranna.
  2. Eigandi/innflytjandi skrautfiskanna/vatnadýranna: Nafn, kennitala, heimili og símanúmer eiganda, auk netfangs ef við á.
  3. Fisktegund/dýrategund.
  4. Smitsjúkdómar: Fiskarnir/vatnadýrin skulu ekki hafa nein einkenni smitsjúkdóms sem borist getur í nytjafisk.

4. Flugferðin til Íslands - innflutningsstaður

Einungis er heimilt að flytja inn gæludýr til Íslands um innflutningsstað sem Matvælastofnun viðurkennir. Innflytjandi pantar sjálfur flugfar fyrir skrautfiskana/vatnadýrin. 

Eftir komuna til landsins áskilur Matvælastofnun sér rétt til að gera skyndikönnun á innfluttum skrautfiskum/vatnadýrum og sannreyna að þau sýni ekki einkenni smitsjúkdóms, hafi innflutningsleyfi og jákvæða umsögn Matvælastofnunar og að frumrit allra tilskilinna vottorða fylgi.

5. Kostnaður við innflutning, öflun vottorða, sýnatökur, eftirlit og einangrun

Innflytjandi ber allan kostnað af sóttvarnarráðstöfunum og öflun vottorða, þ.m.t. sýnatökum, eftirliti og rannsóknum sem Matvælastofnun telur nauðsynlegar.

6. Mikilvæg heimilisföng, símanúmer og vefsíður

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið 
Skúlagötu 4
101 Reykjavík
Sími 545 9700
www.anr.is