• Email
  • Prenta

Innflutningur búrfugla

Hér er að finna leiðbeiningar fyrir innflytjendur búrfugla um hvað beri að gera þegar innflutningur er undirbúinn. Þessar upplýsingar ásamt umsóknareyðublöðum og heilbrigðis- og upprunavottorðum er einnig að finna á vef landbúnaðarráðuneytisins.

Innflutningur búrfugla er óheimill nema að fengnu leyfi landbúnaðarráðherra og uppfylltum skilyrðum reglugerðar nr. 935/2004 um innflutning gæludýra og hundasæðis.

1. Umsókn um innflutningsleyfi
2. Einangrun í 4 vikur - úttekt Matvælastofnunar á aðstöðu
3. Heilbrigðis- og upprunavottorð, sýni vegna salmonellu og paramyxoveira
4. Umsögn og samþykkt vottorða
5. Flugferðin til Íslands - innflutningsstaður
6. Kostnaður við innflutning, öflun vottorða, sýnatökur, eftirlit og einangrun
7. Mikilvæg heimilisföng, símanúmer og vefsíður


1. Umsókn um innflutningsleyfi

Sækja þarf um innflutningsleyfi til Matvælastofnunar (Mast) tímanlega fyrir innflutning. Sótt er um í gegnum þjónustugátt Mast. Greiða skal gjald vegna innflutningseftirlits að upphæð kr. 8.348 til Mast eftir að sótt hefur verið um leyfi. Upplýsingar vegna greiðslu staðfestingargjalds verða sendar umsækjanda þegar umsókn hefur borist. 

Þegar gjald vegna innflutningseftirlits hefur verið greitt fær umsækjandi innflutningsleyfið sent ásamt eyðublöðum fyrir heilbrigðis- og upprunavottorð sem dýralæknir í útflutningslandi dýrsins útfyllir og undirritar. Innflutningsleyfi gildir í eitt ár.

2. Einangrun í 4 vikur - úttekt Matvælastofnunar á aðstöðu

Búrfuglum sem heimilað hefur verið að flytja til landsins skal haldið í einangrun fyrstu fjórar vikurnar eftir innflutning. Eftir að sótt hefur verið um innflutningsleyfi hefur Matvælastofnun samband við innflytjanda til þess að gera ráðstafanir vegna úttektar á sóttkví (heimaeinangrun).

Sóttkví hjá verslunaraðilum skal vera lokað rými þar sem tiltekinn starfsmaður ber ábyrgð á allri umönnun dýra og umgengni og hefur einn aðgang að sóttkvínni. Starfsmaður skal nota sérstakan hlífðarfatnað við störf sín í sóttkvínni sem ekki er notaður utan hennar. Starfsmaður skal gæta fyllsta hreinlætis, m.a. skal hann ætíð þvo og sótthreinsa hendur sínar að loknum störfum sínum í sóttkvínni. 

Nægilegt búrarými skal vera til staðar, loftræsting og niðurfall. Fóðurleifum, sjálfdauðum dýrum og öðru sem dýrin leggja frá sér skal safnað saman og fargað í samræmi við ákvæði 24. gr. reglugerðar þessarar. Á milli sendinga skal rýmið þrifið og sótthreinsað.

Sóttkví hjá einkaaðilum skal uppfylla ofangreind skilyrði eftir því sem við á, þó er ekki krafist lokaðs rýmis. Ekki mega vera önnur dýr á heimilinu meðan á einangrunartíma í heimasóttkví stendur.

3. Heilbrigðis- og upprunavottorð, sýni vegna salmonellu og paramyxoveira

Hafa þarf samband við dýralækni í útflutningslandinu vegna heilbrigðisvottorðs og salmonellusýnis. Saursýni vegna salmonellu og blóðsýni vegna paramyxoveira skal taka á síðustu þremur vikum fyrir innflutning (ath! það tekur eflaust upp undir viku að fá niðurstöður úr slíkum sýnum og gera þarf ráð fyrir að hafa nægan tíma). Innan tíu daga fyrir innflutning skal dýralæknir fylla út heilbrigðisvottorð og staðfesta að fuglinn hafi engin einkenni smitsjúkdóms.

Eftirfarandi skal staðfest í heilbrigðis- og upprunavottorði fyrir búrfugla

  1. Útflutningsland búrfugls.
  2. Eigandi/innflytjandi búrfugls: Nafn, kennitala, heimili og símanúmer eiganda, auk faxnúmers og netfangs ef við á.
  3. Fuglategund.
  4. Smitsjúkdómar: Búrfuglinn skal ekki hafa nein einkenni smitsjúkdóms.
  5. Salmonella: Á síðustu þremur vikunum fyrir innflutning skal taka saursýni til rannsókna á salmonellu. Reynist sýnið jákvætt er óheimilt að flytja búrfuglinn til landsins, nema áhættan við innflutninginn sé ásættanleg að mati Matvælastofnunar.
  6. Paramyxoviridae: Á síðustu þremur vikunum fyrir innflutning skal taka blóðsýni til rannsókna á mótefnum gegn paramyxoveirum (Newcastle disease). Reynist sýnið jákvætt er innflutningur óheimill.

4. Umsögn og samþykkt vottorða

Viku fyrir áætlaðan komudag fuglsins til Íslands skal innflytjandi senda Matvælastofnun, með faxi, innflutningsleyfi og rétt útfyllt og undirritað heilbrigðis- og upprunavottorð.

Sé vottorðunum ábótavant að einhverju leyti er það tilkynnt innflytjanda svo fljótt sem auðið er svo hægt sé að lagfæra það í tíma. Mikilvægt er að hafa rétt símanúmer innflytjanda eða umboðsmanns hans á vottorðinu. Matvælastofnun tilkynnir innflytjanda, héraðsdýralækni og einangrunarstöð, umsögn sína a.m.k. þremur virkum dögum fyrir áætlaðan komudag.

5. Flugferðin til Íslands - innflutningsstaður

Einungis er heimilt að flytja inn gæludýr til Íslands um innflutningsstað sem Matvælastofnun viðurkennir. Innflytjandi pantar flugfar fyrir fuglinn og útvegar búr til flutningsins sem uppfyllir eftirfarandi skilyrði:

  • búrið skal vera sterkbyggt og úr efni sem er auðvelt að þrífa og sótthreinsa (ekki úr viði)
  • á búrinu skulu vera op til að tryggja góð loftskipti og að fuglinn sjái út
  • stærð búrsins skal hæfa stærð fuglsins

Við komuna til landsins á innflutningsstað skoðar héraðsdýralæknir fuglinn og sannreynir að hann sýni ekki einkenni smitsjúkdóms, hafi innflutningsleyfi og jákvæða umsögn Matvælastofnunar og að frumrit allra tilskilinna vottorða fylgi.

6. Kostnaður við innflutning, öflun vottorða, sýnatökur, eftirlit og einangrun

Innflytjandi ber allan kostnað af sóttvarnarráðstöfunum og öflun vottorða, þ.m.t. sýnatökum, eftirliti og rannsóknum sem Matvælastofnun telur nauðsynlegar.

7. Mikilvæg heimilisföng, símanúmer og vefsíður

Atvinnu- og nýsköpunarráðuneytið
Skúlagötu 4
101 Reykjavík
Sími 545 9750 – Fax 552 1160
postur@anr.is

Matvælastofnun
Austurvegi 64
800 Selfoss
Sími 530 4800– Fax 530 4801
www.mast.is