Dýralæknaþjónusta í Þingeyjarsveit

Grár hestur
30.10.2018 Fréttir - Lausar stöður

Matvælastofnun auglýsir eftir sjálfstætt starfandi dýralæknum til að taka að sér almenna dýralæknaþjónustu og bráðaþjónustu í dreifðari byggðum landsins í samræmi við reglugerð nr. 846/2011. Með reglugerðinni er ætlað að tryggja dýraeigendum nauðsynlega almenna þjónustu og bráðaþjónustu við dýr á landssvæðum þar sem fjöldi dýra er takmarkaður og/eða verkefni dýralækna af skornum skammti.

Gerður verður þjónustusamningur við viðkomandi dýralækni/dýralækna. Gildistími samnings er frá 1.12.2018 til 31.10.2019. MAST tryggir skv. samningnum mánaðarlega greiðslu til að sinna dýralækna- og bráðaþjónustu á viðkomandi þjónustusvæði.

Dýralæknir sem gerir þjónustusamning skal vera með starfsstöð innan hlutaðeigandi þjónustusvæðis til að tryggja eftir föngum að dýraeigendur fái ávallt dýralækna- og bráðaþjónustu innan hæfilegs tíma. Dýralækninum er heimilt að sinna bráða- og dýralæknaþjónustu á öðrum svæðum en tilgreind eru í samningi þessum. Með sama hætti er öðrum dýralæknum heimilt að bjóða fram þjónustu sína á þjónustusvæðinu. Æskilegt er að umsækjandi hafi góða þekkingu á staðháttum og sjúkdómastöðu á viðkomandi svæði. Gerð er krafa um góða íslenskukunnáttu.

Um er að ræða eftirfarandi þjónustusvæði:

Þjónustusvæði 5: Þingeyjarsveit, að undanskildum Fnjóskadal, Skútustaðahreppi, Tjörneshreppi og Norðurþingi (vestan Blikalónsdals).

Frekari upplýsingar um starfið

Nánari upplýsingar um dýralæknaþjónustuna og gerð þjónustusamnings veita Sigurborg Daðadóttir yfirdýralæknir (sigurborg.dadadottir hjá mast.is) og Bjarki Kristjánsson forstöðumaður (bjarki.kristjansson hjá mast.is)  í síma 530 4800. Jafnframt er vísað til reglugerðar nr. 846/2011 um dýralæknaþjónustu í dreifðari byggðum landsins. 

Umsóknir skulu sendar í tölvupósti á netfangið starf@mast.is merktar “Þjónustusvæði 5“. Umsóknarfrestur er til og með 19. nóvember 2018.

Frétt uppfærð 30.10.18 kl. 17:04

Til baka