Upplýsingalög - synjun Matvælastofnunar staðfest

Húsakynni MAST
10.07.2017 Fréttir - Dýraheilbrigði

Nýlega staðfesti úrskurðarnefnd um upplýsingamál synjun Matvælastofnunar á að veita blaðamanni upplýsingar um aðbúnað dýra á tilteknu lögbýli. 

Enda þótt meginreglan skv. upplýsingalögum sé sú að veita beri almenningi (þ.m.t. blaðamönnum) aðgang að öllum upplýsingum stjórnvalda, eru á því nokkrar undantekningar. Í þessu tilviki bar Matvælastofnun fyrir sig ákvæði í lögunum sem bannar stjórnvöldum að veita upplýsingar um einka- eða fjárhagsmálefni einstaklinga.   Blaðamaðurinn var ósáttur við þessa synjun og kærði hana til nefndarinnar.  Fyrir lá að blaðamaðurinn vissi hvert lögbýlið var, þannig að ekki var hægt að afmá upplýsingar um það úr gögnum málsins og afhenda gögnin síðan.

Í þessu máli var ábúandinn á bænum sjálfur skráður fyrir dýrunum og eignir, fé, innlegg og annað skráð á kennitölu hans.  Hann var umráðamaður dýranna og persónulega ábyrgur fyrir aðbúnaði þeirra.  Brot á lögum um velferð dýra eru refsiverð.

Upplýsingar um grun um refsiverðan verknað telst til viðkvæmra persónuupplýsinga.  Nefndin þurfti því að vega saman hagsmuni bóndans af því að upplýsingar um viðkvæm persónuleg málefni hans fari leynt á móti þeim almennu hagsmunum sem felast í því að fjölmiðlar fái aðgang að gögnum um aðbúnað dýra.   Hagsmunir bóndans vógu þyngra eins og hér háttaði til að mati úrskurðarnefndarinnar.  Ákvörðun Matvælastofnunar var því staðfest.

Til baka