Eftirlit með áburði 2015

Áburður
25.01.2016 Fréttir - Dýraheilbrigði / Matvælaöryggi

Ársskýrsla áburðareftirlits Matvælastofnunar hefur verið birt á vef stofnunarinnar. Í skýrslunni er að finna helstu niðurstöður eftirlits með áburði á árinu 2015.

Á árinu 2015 fluttu 26 fyrirtæki inn áburð og jarðvegsbætandi efni alls 290 tegundir. Alls voru flutt inn 50.572 tonn af áburði og jarðvegsbætandi efnum. Innlendir framleiðendur eru 15 á skrá, það eru fyrirtæki sem framleiða áburð eða jarðvegsbætandi efni á landinu. Áburðarfyrirtæki sem voru með skráða starfsemi á árinu eru því 41.

Sýnataka og vöruskoðun var gerð hjá 5 innflutningsfyrirtækjum og voru alls 39 áburðarsýni af jafnmörgum áburðartegundum tekin á árinu. Auk þess voru merkingar og umbúðir skoðaðar. 

Við efnamælingar kom í ljós að 5 áburðartegundir voru með efnainnihald undir vikmörkum samkvæmt ákvæðum reglugerða. Þar af voru 4 með of lítið köfnunarefni, og 2 með of lítinn brennistein og ein með of lítinn bór. Í einu tilfelli voru fleiri en eitt næringarefni undir leyfðum vikmörkum. Þessar tegundir hafa verið teknar af skrá Matvælastofnunar.

Fáar athugasemdir voru gerðar við merkingar, en helstu gallar voru vegna misræmis milli skráninga og merkinga einnig voru merkingar máðar í nokkrum tilfellum. Þá voru gerðar athugasemdir ef merkingar voru ekki á Íslensku.

Ítarefni

Til baka