Eftirlit, áhættumat og viðbúnaður vegna fuglaflensu

28.02.2008 Fréttir - Fréttir

Þar sem senn fer að líða að því að farfuglarnir komi til landsins hefur Matvælastofnun nýverið farið yfir og endurskoðað áhættumat vegna fuglaflensu.


Stofnunin fylgist grannt með útbreiðslu fuglaflensu í heiminum, sér í lagi í löndum þar sem farfuglarnir okkar hafa vetursetu. Í Evrópu greindist fuglaflensa á árinu 2007 í Bretlandi, Þýskalandi, Tékklandi, Frakklandi, Rússlandi, Rúmeníu og Póllandi.


Alvarlegt afbrigði af sjúkdómnum greindist í hnúðsvönum í Dorset í Bretlandi 8. janúar s.l. og aftur 4. febrúar. Tíðni sýkingarinnar virðist þó vera lág og enginn grunur hefur komið upp um sýkingu í öðrum villtum fuglum né alifuglum.


Matvælastofnun hefur einnig öflugt eftirlit með villtum fuglum og alifuglum hér á landi. Sýni verða tekin í vor og í haust eins og gert hefur verið síðast liðin ár. Í fyrra voru tekin sýni úr 465 villtum fuglum og 217 alifuglum. Öll sýnin reyndust neikvæð.


Innan Matvælastofnunar starfar viðbúnaðarhópur sem hefur náið samstarf við sérfræðinga Tilraunastöðvar HÍ í meinafræði að Keldum. Hópurinn vinnur að áætlunum um viðbrögð við smitsjúkdómum í dýrum og mati á áhættu á hverjum tíma.


Þegar metið er hversu mikil hætta sé á að fuglaflensuveirur berist í alifugla hér á landi, og hvaða afleiðingar það gæti haft í för með sér, eru m.a. eftirtaldir þættir hafðir í huga:


 1. Hversu miklar líkur eru á að fuglaflensuveirur séu til staðar í villtum fuglum hér á landi?
  1. Hvaða árstími er?
  2. Hefur fuglaflensa greinst í fuglum í löndum sem farfuglarnir okkar koma frá?
   • Ef svo er:
    • Hvert er algengi smits í fuglunum?
    • Eru smitaðir fuglar nálægt vetrarstöðvum okkar farfugla?
    • Um hvaða fuglategund er að ræða?
    • Til hvaða aðgerða hefur verið gripið í löndunum?
    • Um hvaða veirugerð er að ræða?
 1. Hversu miklar líkur eru á að fuglaflensuveirur berist úr villtum fuglum í alifugla?
  1. Hver er fjarlægð frá smituðum fuglum í alifuglabú?
  2. Hvaða fuglategund er um að ræða?
  3. Hvernig eru smitvarnir á alifuglabúunum?


Matvælastofnun hefur skilgreint þrjú viðbúnaðarstig vegna fuglaflensu, sem byggjast á því hversu mikil hætta er talin á að fuglaflensuveirur berist í alifugla. Viðbúnaðarstig 1 er grunnstig sem stöðugt er í gildi nema ef smithætta eykst, að mati stofnunarinnar.

Hér að neðan er tilgreindur lágmarks viðbúnaður allra fuglaeigenda á hverju stigi. Fyrir eigendur alifuglabúa með 50 fugla og fleiri gilda að auki ákvæði reglugerðar um aðbúnað og sjúkdómavarnir á alifuglabúum og útungunarstöðvum nr. 251/1995.


Viðbúnaðarstig 1 - Þegar lítil hætta er talin á að fuglaflensa berist í alifugla


 • Forðast skal að hafa nokkuð í umhverfi fuglahúsa sem laðar að villta fugla
 • Fuglahúsum skal vel við haldið
 • Góðar smitvarnir skulu viðhafðar


Viðbúnaðarstig 2 - Þegar miðlungs hætta er talin á að fuglaflensa berist í alifugla


 • Allir sund- og hænsnfuglar í haldi skulu hýstir eða hafðir í gerði undir þaki
 • Sund- og hænsnfuglar skulu aðskildir
 • Setja skal hatta á allar lóðréttar loftræstitúður
 • Setja skal fuglanet fyrir allar loftræstitúður, op og glugga
 • Öllum óviðkomandi skal bannaður aðgangur
 • Sérstakur skófatnaður og hlífðarföt skulu notuð við umhirðu fuglanna
 • Tryggja skal að hundar og kettir komist ekki inn í fuglahús eða –gerði
 • Tryggja skal góðar smitvarnir við vatnsból
 • Sýningarhald og aðrar samkomur með fugla er bannað


Viðbúnaðarstig 3 - Þegar mikil hætta er talin á að fuglaflensa berist í alifugla


 • Brugðist skal við samkvæmt fyrirmælum Matvælastofnunar sem byggjast á áætlun um viðbrögð við alvarlegum búfjársjúkdómum


Að mati viðbúnaðarhóps Matvælastofnunar er að svo stöddu lítil hætta á að fuglaflensa berist í alifugla hér á landi og því ekki ástæða til að hækka viðbúnaðarstigið. Stofnunin  sendir frá sér fréttatilkynningu, ef þessi staða breytist. Fuglaeigendum er þó bent á að búa sig undir að viðbúnaðarstigið verði hækkað og hafa tiltæka þá aðstöðu sem krafist er.

Til baka