Ný Matvælastofnun - Matvælaeftirlitið
Sameining matvælamála í einu
ráðuneyti og einni stofnun á vegum ríkisins mun einfalda stjórnsýslu, gera hana
markvissari og tryggja betra og faglegra eftirlit á öllum stigum framleiðslu og
dreifingar matvæla og fóðurs. Samkvæmt frumvarpinu er breytingunum einnig ætlað
að efla orðspor íslenskrar matvælaframleiðslu og samkeppnisstöðu hennar á
mörkuðum. Landbúnaðarstofnun fagnar því að fram er komið frumvarp um sameiningu
matvælalöggjafar og matvælaeftirlits á vegum ríkisins í einu ráðuneyti og einni
stofnun. Mál þetta á sér í raun langan aðdraganda og er tímabært að einfalda
skipan mála, bæði hvað varðar stjórnsýslu í málaflokknum og ekki síður þegar
kemur að eftirliti með matvælafyrirtækjum, með það að markmiði að stuðla að
öryggi matvæla, öflugri neytendavern og almennri fræðslu um matvæli.
Gert er ráð fyrir
að ný matvælastofnun taka til starfa 1. janúar 2008. Þetta er stuttur
fyrirvari, en mikilvægt er að sameinuð stofnun geti hafið störf sem fyrst, ekki
síst vegna breytinga sem ráðgerðar eru á EES-samningnum síðar í þessum mánuði. Gangi
þær fyrirætlanir eftir mun Ísland taka upp endurskoðaða og að mörgu leyti
endurbætta löggjöf Evrópusambandsins um matvælaöryggi og opinbert
matvælaeftirlit, hollustuhætti við framleiðslu og dreifingu matvæla og um
Matvælaöryggisstofnun Evrópu, sem Ísland fær þá formlega aðild að með sama
hætti og önnur ríki á EES. Ísland mun fá allt að sex mánaða tíma til að gera
nauðsynlegar lagabreytingar vegna nýrrar EES-löggjafar og að þeim tíma liðnum
eiga einnig að liggja fyrir samræmdar eftirlitsáætlanir fyrir alla fæðukeðjuna,
frá frumframleiðslu matvæla til dreifingar tilbúinnar neytendavöru. Aðlögunartími
Íslands vegna innleiðingar löggjafar og breytinga á eftirliti með dýraafurðum
eins og mjólk, kjöti og eggjum mun þó verða allt að tveimur árum, þar sem
Ísland hefur hingað til haft undanþágu frá því að innleiða ESB löggjöf á sviði
dýraheilbrigðis og dýraafurða, annarra en sjávarafurða.
Fastráðnir starfsmenn Landbúnaðarstofnunar
eru 54, en auk þess eru starfsmenn í tímabundnum störfum við
heilbrigðiseftirlit í sláturhúsum, eftirlit með fiskeldi, lax- og silungsveiði
og við kjötmat. Þá eru einnig ráðnir starfsmenn og gerðir verksamningar vegna
viðhalds varnargirðinga. Að meðtöldum tímabundnum ráðningum eru ársverk hjá
stofnuninni um 60. Þá hefur stofnunin gert verksamninga við Veiðimálastofnun og
Bændasamtök Íslands, sem þar með sinna verkefnum fyrir Landbúnaðarstofnun, sem
samsvara allt að fimm ársverkum. Starfsmenn matvælasviðs Fiskistofu eru 12 og
hjá matvælasviði Umhverfisstofnunar eru 9 starfsmenn. Fastráðnir starfsmenn hjá
nýrri matvælastofnun verða því 75 og mun stofnunin áfram þurfa að ráða í
tímabundin störf og byggja á verksamningum við aðra aðila, eins og raunin er á
í dag vegna framangreindra verkefna. Þá liggur enn ekki fyrir áætlun um þörf á
ráðning starfsfólks í ný verkefni vegna breytinga á EES-samningnum, við innleiðingu
nýrrar matvælalöggjafar og breytinga sem verða í framhaldi af því á eftirliti
með matvælum og fóðri.
Til fróðleiks má einnig geta þess að hjá
Heilbrigðiseftirliti sveitarfélaga eru ársverk í matvælaeftirliti samtals um 20
talsins á tíu heilbrigðiseftirlitssvæðum um allt land og þá eru 4 starfsmenn
hjá einkareknum skoðunarstofum sem sinna eftirliti með fyrirtækjum sem
framleiða sjávarafurðir.
Líkur eru á að lög um sameinaða
matvælastofnun verði ekki afgreidd frá Alþingi fyrr en í desember nk. Þrátt fyrir
það hafa Landbúnaðarstofnun og matvælasvið Umhvefisstofnunar og Fiskistofu
þegar hafið viðræður og samstarf til að vinna að undibúningi að stofnun nýrrar
matvælastofnunar, tillögugerð um innra stjórnskipulag hennar og fyrirliggjandi
verkefni eins og gerð eftirlitsáætlana og stefnumótun.
Frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna tilfærslu verkefna
innan Stjórnarráðs Íslands má finna á eftirfarandi vefslóð:http://www.althingi.is/altext/135/s/0131.html