• Email
  • Prenta

Kjöt og kjötafurðir

Heilbrigðisskoðun

Kjötskoðunarlæknar heilbrigðisskoða sláturdýr og sláturafurðir samkvæmt ákvæðum í reglugerð nr. 105/2010 um gildistöku reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 854/2004 um sértækar reglur um skipulag opinbers eftirlits með afurðum úr dýraríkinu sem eru ætlaðar til manneldis., með áorðnum breytingum. Áður en búfé er slátrað skal kjötskoðunarlæknir skoða sláturdýr lifandi til að gera sér sem gleggsta grein fyrir heilsufari þeirra og hvort um sjúkdóma eða eitranir geti verið að ræða. Í lögum nr. 96/1997 um eldi og heilbrigði sláturdýra, slátrun, mat og meðferð sláturdýra, er heimild til að skoða sláturdýr heima á býli hjá bóndanum. Það er gert í nokkrum tilvikum. Þannig eru tekin sýni af alifuglum á eldistímanum og þau rannsökuð með tilliti til Salmonella og Campylobacter og einnig af öðrum dýrum ef ástæða þykir til. Við skoðun á lifandi dýrum er einnig kannað hvort þau eru hrein eða óhrein. Kjötskoðunarlæknir skal einnig hafa gát á því að ómannúðleg meðferð eða misþyrming dýra eigi sér ekki stað í sláturhúsum, eða við flutninga á þeim.

Flutningur sláturdýra

Fækkun sláturhúsa hefur leitt af sér lengri flutninga á sláturdýrum sem mögulega veldur meira álagi á dýrin. Héraðsdýralæknar fylgjast með því að sláturdýrum sé ekki misboðið með löngum flutningum.

Önnur afleiðing af fækkun sláturhúsa, er aukinn flutningur sláturdýra milli varnarhólfa (varnarholf_01), en því fylgir aukin hætta á að smitsjúkdómar berist milli varnarsvæða. Þeirri meginreglu er fylgt að flytja ekki fullorðið sauðfé af svæði með fleiri sjúkdóma inn á svæði með færri sjúkdóma, sé þess nokkur kostur. Flutningar sláturdýra milli varnarhólfa hefur einnig í för með sér aukna þörf á góðum þrifum og sótthreinsun á flutningatækjum. Um flutning fullorðinna sláturdýra milli varnarhólfa gilda sérstakar reglur.

Kjötmat

Matvælastofnun sinnir yfirkjötmati og ber ábyrgð á kjötmati í sláturhúsum og samræmingu þess.  Sjá lög og reglur um sláturhús og kjötskoðun.

Innheimt er sérstakt gjald af sláturleyfishöfum til að standa straum af kostnaði við yfirkjötmatið. Nemur það 0,55 kr. á hvert innvegið kíló og tekur til kinda-, stórgripa- og svínakjöts. 

Við hvert sláturhús starfa kjötmatsmenn sem eru launaðir af sláturleyfishöfum en bera faglega ábyrgð gagnvart Matvælastofnun. Kjötmatið, þ.e. flokkun skrokka eftir holdfyllingu og fitu, gegnir veigamiklu hlutverki sem undirstaða verðlagningar og viðskipta með kjöt og til upplýsingar fyrir búfjárræktina. 

Í kjötmatsreglugerðinni (nr. 882/2010) segir m.a. um hlutverk Matvælastofnunar (stytt): 

Matvælastofnun skal: 


  • hafa forystu um mótun á reglum um gæðamat og flokkun á kjöti.
  • skipuleggja námskeið fyrir kjötmatsmenn.
  • meta hæfni þeirra og setja þeim erindisbréf.
  • leiðbeina þeim og samræma störf þeirra með reglubundnum hætti.
  • skera úr ágreiningi um gæðamat og störf kjötmatsmanna.
  • framkvæma yfirmat samkvæmt rökstuddri beiðni kaupanda eða seljanda.
  • sjá til þess að safnað sé upplýsingum um gæðamat á kjöti og að þær séu til reiðu á aðgengilegu formi.

Niðurstöður