• Email
 • Prenta

Innflutningur hunda og katta

Hvað þarf að gera til að flytja inn hund eða kött?

 • Sækja um innflutningsleyfi til Matvælastofnunar.  Dýrið þarf að vera örmerkt.
 • Greiða staðfestingargjald.  Matvælastofnun sendir upplýsingar um upphæð og reikningsnúmer þegar umsóknin hefur verið samþykkt.  Athugið að senda kvittun á mast@mast.is.  Þegar greiðslan hefur verið sannreynd verður innflutningsleyfi (import permit) gefið út.
 • Skoða þarf vel þær kröfur sem gerðar eru um bólusetningar og sýnatökur. Athuga sérstaklega tímamörkin sem gefin eru upp.  Athugið að hafi dýrið síðustu 6 mánuði fyrir innflutning komið til lands þar sem hundaæði fyrirfinnst, þarf það hundaæðisbólusetningu. 
 • Panta pláss fyrir dýrið í einangrunarstöð. –Tekið er á móti dýrum i einangrunarstöðinni einu sinni í mánuði á fyrirfram ákveðnum komudögum (3ja daga tímabil).  Ekki er hægt að senda dýr til landsins á öðrum dögum. Eftir það lokast einangrunin og tekur hún ekki á móti dýrum aftur fyrr en viðkomandi hópur hefur verið útskrifaður.  Athugið að ef eitthvað kemur upp á á einangrunartímanum (s.s. sjúkdómur) í einu eða fleiri dýrum, getur orðið seinkun á útskrift alls hópsins. Upplýsingar um móttökudagsetningar veita starfsmenn einangrunarstöðvarinnar (Einangrunarstöð Reykjanesbæjar www.einangrun.is ). Hafa skal í huga að bóka þarf pláss í einangrun með góðum fyrirvara.
 • Panta flug. –Keflavíkurflugvöllur er eini samþykkti innflutningsstaðurinn fyrir gæludýr.  Leyfilegur komutími dýra er á milli kl. 05:00 og 17:00 á fyrirfram ákveðnum komudögum. Ef nauðsynlegt er að senda hunda og ketti með  flugi sem lendir utan þess tíma þarf að sækja sérstaklega um það með a.m.k. viku fyrirvara. Komi dýr sem leyfi hefur verið veitt fyrir utan leyfilegs komutíma fellur talsverður aukakostnaður á innflytjanda vegna eftirlits og umönnunar dýranna.
 • Útvega búr fyrir flutninginn. –Búrið skal vera það stórt að dýrið geti staðið, legið og snúið sér við í því. Búrið á að vera úr efni sem auðvelt er að þrífa og sótthreinsa, ekki úr viði. Ef ekki er hægt að þrífa og sótthreinsa búrið verður því fargað að loknum innflutningi. Mjúkar töskur eru ekki leyfilegar.
 • Að minnsta kosti 5 virkum dögum fyrir áætlaðan komudag skal senda heilbrigðisvottorðið ásamt niðurstöðu mótefnamælingar (ef það á við) til Matvælastofnunar til samþykktar (faxnúmer: +354 530 4801, netfang: mast@mast.is). Athugið að vottorðið séu rétt fyllt út og að komutími og flugnúmer komi skýrt fram.  Einnig er mikilvægt að hafa rétt símanúmer og netfang innflytjanda eða umboðsmanns á vottorðinu.
 • Frumrit eftirfarandi gagna skulu fylgja dýrinu til Íslands:
  • Innflutningsleyfi (import permit)
  • Uppruna- og heilbrigðisvottorð og fylgiskjöl (niðurstöður blóðrannsókna ofl.)
  • Niðurstaða mótefnamælingar gegn hundaæði.

   Nauðsynlegt er að fyrrnefnd gögn séu fest tryggilega, í vatnsheldum umbúðum, á flutningsbúr dýrsins.

Athugið að ekki þarf að greiða toll af gæludýri sem er að flytja búferlaflutningum með eigendum sínum, hafi það verið í eigu viðkomandi í a.m.k. eitt ár.  Til sönnunar á eignarhaldi þessu má notast við reikninga frá dýralækni, bólusetningabók o.þ.h.  Hafi dýrið verið keypt innan árs frá innflutningi skal framvísa við tollyfirvöld reikningi þar sem kaupverð dýrsins kemur fram.  Nánari upplýsingar um tollamál fást hjá Tolleftirlitinu á Keflavíkurflugvelli í síma 5691750.

 •  Verði breyting á uppgefnum komutíma dýrs til landsins skal tilkynna það Matvælastofnun við fyrsta tækifæri.


b